Startup Stormur á fleygiferð um Norðurland

Hraðallinn Startup stormur er á fleygiferð en teymin hafa nú lokið þremur vikum af sex í hraðlinum. Þátttakendur hafa fengið tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki. Fyrsti mentorafundurinn fór fram 10. október sl. en teymin hittu þá reynslubolta víða úr atvinnulífinu. Við þökkum þeim kærlega fyrir að gefa sér tíma til að taka þátt í hraðlinum okkar.

Mentorar voru:

Hreinn Þór Hauksson er framkvæmdastjóri viðskipta- og vöruþróunar hjá Íslenskum verðbréfum. Hreinn er með meistaragráðu í frumkvöðlafræði og nýsköpun frá Háskólanum í Lundi frá 2012 og hefur mikinn áhuga á öllu efnahagsumhverfi og aðstöðu frumkvöðla á Íslandi. Hreinn hefur starfað hjá Íslenskum Verðbréfum hf. frá 2014 og þá fyrst sem sjóðstjóri sérhæfðra sjóða, verðbréfasjóða og fagfjárfestasjóða.

Rebekka Kristín Garðarsdóttir er verkefnastjóri með alþjóðlega reynslu en hún var búsett í Asíu í 18 ár áður en hún flutti til Akureyrar fyrir 3 árum. Hún vinnur nú hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Wise lausnum ehf. en starfaði áður í 2 ár hjá SSNE þar sem hún vann að atvinnuþróun og fjármögnun nýsköpunarhugmynda á svæðinu.

Hildur Þóra Magnúsdóttir lauk master í fjármálum og alþjóðaviðskiptum í Danmörku 2009 og hefur síðan þá starfað sem ráðgjafi, rekstrarstjóri og framkvæmdastjóri. Árið 2015 stofnaði hún fyrirtækið Pure Natura sem framleiðir og selur fæðubótarefni gerð úr innmat lamba og jurtum og starfar þar í dag sem framkvæmdastjóri. Hildur hefur gengið í gegnum allt ferlið frá hugmynd af vöru til markaðar og þekki vel þær áskoranir sem frumkvöðlar mæta.

Kjartan Sigurðsson er lektor við Viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri (HA), einnig veitir hann forstöðu og er ég ábyrgur fyrir þróun nýs þekkingarseturs sem fellur undir skrifstofu rektors við Háskólann á Akureyri um Nýsköpun, frumkvöðlafærni og sjálfbærni. Kjartan er með doktorsgráðu frá Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og hefur víðtæka reynslu á sviði rannsókna, sem framkvæmdastjóri, frumkvöðull og kennari. Einnig hef hann starfað víða við ráðgjöf á innleiðingu og framkvæmd áætlanagerða í fyrirtækjum, mótun nýrra viðskiptamódela og með áherslu á nýsköpun í Evrópu og á Íslandi. Sérþekking Kjartans er á sviði samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja, sjálfbærni, frumkvöðlafræða og nýsköpunar.

Kolfinna María Níelsdóttir, verkefnastjóri hjá EIMI. Markmið Eims er að bæta nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Kolfinna hefur margra ára reynslu af nýsköpunarsenunni og hefur stutt marga frumkvöðla í gegnum Norðanátt. Hún stýrði Norðanátt á síðasta ári.

 

Í dag, 24. október fer fram annar mentorafundur hraðalsins.

Þann 17. október sl. fór fram vinnustofa á Húsavík. Þar var hópefli til að hrista hópinn saman, ásamt því að þátttakendur fengu kynningar á Business model canvas, viðskiptaáætlunum og farið var yfir hvernig þú ferð frá hugmynd að vöru. En næsta vinnustofa fer fram í Varmahlíð þann 29. október.

Það má með sanni segi að þátttakendur séu á fullri ferð áfram og hlökkum við til næstu vikna með þessum frábæru teymum.

Previous
Previous

Lokaviðburður Startup Storms

Next
Next

Sjö nýsköpunarteymi af Norðurlandi hafa verið valin til þáttöku í Startup Stormi